AS WE GROW X Sweet Salone

AS WE GROW X Sweet Salone

As We Grow er í samstarfi við Aurora Foundation sem hefur það að markmiði að tengja íslenska hönnuði saman við hönnuði og handverksmenn frá Sierra Leone með það fyrir augum að búa til samstarfsgrundvöll þar sem báðir aðilar geti lært hvor af öðrum. Aurora Foundation sjóðurinn er ekki rekinn í hagnaðarskyni en styrkir samfélags- og menningartengd verkefni á Íslandi og í Afríku. Með því að kynna okkur hjá As We Grow fyrir lista- og handverksfólki á einu fátækasta landsvæði í heiminum vonumst við til þess að þekking og skilningur á aðstæðum í Sierra Leone aukist og menning okkar auðgast í leiðinni.

AS WE GROW X Sweet Salone samstarfið 

Við trúum því af öllu hjarta að með því að deila hugmyndum okkar, með því að vinna
saman og læra hvert af öðru getum við haft jákvæð áhrif á umhverfi okkar og bætt líf annarra.

Allar vörur sem búnar eru til undir þessu samstarfi eru hannaðar undir merkjum Sweet Salone. Orðið Salone þýðir Sierra Leone á tungumálinu Krio sem er aðaltungumál landsins en Sweet Salone er gælunafn sem heimamenn hafa gefið landinu sínu. Hver flík er þar að auki merkt með nafni og sögu þeirrar handverksmanneskju sem skapað hefur vöruna. Hugmyndafræðin að baki Sweet Salone verkefnisins passar einstaklega vel við hugsunina að baki As We Grow, að vita hvaðan varan kemur frá hugmynd að tilbúnum hlut.

Þær vörur og hugmyndir sem sprottið hafa af þessu tvíhliða samstarfi hafa farið fram úr okkar björtustu vonum. Frá fyrstu skrefum hafa gæði varanna aukist til muna og hönnuðum okkar hefur tekist að hvetja handverskfólkið að stíga út fyrir sitt þægindasvið með góðum árangri. Í sameiningu hefur okkur tekist að framleiða nýjar vörur sem koma beint úr ranni lista- og handverksfólks í Sierra Leone eftir íslenskri hönnun.

Með því að taka þátt í þessu verkefni er það von okkar að geta stutt hönnunar- og
handverksiðnaðinn í Sierra Leone og lagt okkar af mörkum við að varðveita handverk og hráefni sem annars myndu jafnvel glatast. Við leggjum okkar af mörkum við að styðja við handverksfólkið í Sierra Leone í leið sinni til betra lífs og samtímis víkka sjóndeildarhring íslenskra hönnuða. Að síðustu er það að sjálfsögðu einnig markmið okkar að framleiða fallegar vörur sem falla vel að hugmyndafræði okkar.

Það er von okkar að þessar vörur höfði til fjölda fólks og ferðist um allan heim. Það er okkar ósk að salan á Sweet Salone vörunum sé upphafið að stærra og meira samstarfi íframtíðinni.

Left Versla meira
Pöntun

Þú átt engar vörur í körfu